Monday, February 27, 2006

Annaðhvort eða...

Ungt fólk á Íslandi (og reyndar ekki bara ungt) hefur á seinustu "misserum" skift sér í tvær fylkingar. Þeir sem að elska Gilzenegger, og þeir sem að elska hann ekki. (Miklu nær hata hann!)

Ég veit ekki hvorum meginn línurnar ég er lentur, því að ég er drulluhrifinn af ruglinu, hrokanum og ákveðninni í honum! Reyndar finnst mér þeir sem að hafa einsett sér að hata manninn, kannski aðeins verið of fljótir á sér og virkilega tekið hann alvarlega :D Hann er náttúrulega búinn að koma smávegis upp um sig að hluti af karakternum hans sé nú bara uppgerð og grín. Samt sem áður hef ég lúmskt gaman af honum þar sem að kauði er alls ekkert illa gefinn og þótt ótrúlegt megi virðast kemur hann bara skratti vel fyrir sig orði og talar alveg hreint framúrskarandi gott íslenkst mál! Að sjálfsögðu liggur hann alls ekki skoðunum sínum, og hikar ekki að svara hverjum sem er sem að gerist svo ósvífinn að hafa í frammi "ó-hnakkalegar" skoðanir á honum á almennum vettvangi

Best þykir mér þó hversu skemmtilega hann og "Partý-Hanz" upphefja sjálfa sig og hnakka-kúltúrinn samtímis með að gera stólpagrín að sjálfum sér! En...hafa þó ansi mikið rétt fyrir sér!

Eins og Gilzinn sjálfur segir: "Það er ekkert vit í því að líta vel út og hugsa um sjálfan sig, ef að menn haga sér síðan eins og hálfvitar!"

Er ekki bara málið að skella sér í "Af-treflun" ??

Saturday, February 25, 2006

Ertu nógu öruggur?

Ég reyni að velta því fyrir mér er þú kemur blússandi niður götuna í fallegri vetrarsólinni og snjóleysinu hvort að þér finnist þú vera nógu öruggur í upphækkaða fjórhjóladrifna Landcruisernum þínum?

Það myndi ég halda, enda ertu á vel negldum dekkjum ! (wtf *#$"%&!?)

En segðu mér, til hvers í ósköpunum ertu þá með krómfelgur undir honum líka ?

Ég vona svo sannarlega að þú festir þig ekki, eða að það fari nú að snjóa eða rigna svo að þú þurfir að fara að skola af þessum skínandi fallegu felgum!

Sunday, February 19, 2006

Secret agent # 0.07

Það verður ekki skafið af uppálds ellismellinum mínum, General Bear Bearson! Eftir að hafa barist á "pöllum" elsta starfandi lýðræðisalþingi í heiminum í mörg ár fyrir stofnun "Hinz Ízlenzka Herz", þá hefur hann nú ákveðið að lauma á okkur vatnsþynntri útgáfu svona til að ýta þessu í rétta átt. "Ðe Æslandik Síkrit Sörvis" Eða bara leyniþjónustu!

Það verður nú ekki skafið af þeim gamla að hann gefst aldrei upp. Sama hversu langt út á tún hann er kominn! Hann virðist ekki alveg fatta að hann var settur út á túnið til að bíta gras, vera ekki fyrir og njóta góðs af því að vera í "klíkunni". Karlinn er bara ekki alveg með "fulde fem" að mínu mati og löngu kominn tími á að fara senda hann uppí seðlabanka eða eitthvað alíka óviturlegt sem að honum hæfir! Leyniþjónustu á Íslandi ?? Hvað er hann að pæla ?? "Til að rannsaka og fyrirbyggja atlögu að íslensku stjórnkerfi"

Hvaða hriðjuverkamenn hafa áhuga á að skapa glundroða eða óróa á einhverju furðulega og hálffrosnu skeri lengst norður í Atlantshafi ??

Nema ef vera skyldi að Norska síldarmafían og Rússnesku loðnuglæpamennirnir, sem hafa mikilla hagsmuna að gæta í kjölfar styrjaldar í snjóstorminum hérna!

Saturday, February 18, 2006

Réttlæting á nafgiftinni!

Þessi frétt í fréttablaðinu þ. 13. febrúar finnst mér fyllilega rétllæta nafngiftina á blogginu!

"Drukkinn á ofsahraða"

"Maður sem tekinn var fyrir að aka ölvaður á 159 km hraða í Austur-Húnavatnssýslu hefur verið dæmdur fyrir í hæstaréttií sex mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára."
"Við handtöku lögreglunar framvísaði maðurinn skilríkjum annars sem var í kjölfarið kærður fyrir aksturinn." "Sá kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkurog greyndi frá að veskinu hans hefði verið stolið á veitingastað í miðbænum." "DNA rannsókn í Noregi skar úr um hver ók bifreiðinni og komst maðurinn því ekki hjá dómi, en þar sem að hann var aðeins 19 ára þótti skilorð við hæfi."

Halló ?? Við hæfi ? Ég gæti rausað endalaust um gagnslausa réttarkerfið okkar, en þessi frétt segir í hnotskurn það sem segja þarf!

Sunday, February 12, 2006

Brostu fyrir myndavélina!

Á fáum en útvöldum gatnamótum í Reykjavíkurborg hefur lögreglan látið koma fyrir svokölluðum löggæslumyndavélum. Hafa þær nú staðið þarna í þó nokkur ár og veitt nokkrum vel völdum bílstjórum það tækifæri að fá úrvalsmynd af sér við að aka yfir þessi gatnamót móti rauðu ljósi. Að sjálfsögðu hafa þessir sömu bílstjórar þurft að reiða fram talsverðar fjárhæðir til að eignast svona fallegar myndir til að geta sýnt vinum og vinnufélögum, hvort sem að þeim líkar eður ei.

Út í hinum stóra heimi er minna um þetta uppátæki að staðsetja þessa undragripi á gatnamótum en meira um það að þær séu settar upp til að sporna við hraðakstri og nemi því "blásaklausa" bílstjóra við að setja fótin of þungt niður. (Trúið mér, ég hef þurft að blæða fyrir svona myndatöku) Mér finnst hreint út sagt þetta hið sniðugasta ráð til að taka allharkalega í bremsuna og danna þjóðina í að keyra á sómasamlegum hraða! Þessar myndavélar myndu raka inn peningum og gefa lögregluni tugi milljóna í tekjur, sem að hún gæti nýtt í þjóðþrifaverkefni eins og að berjast við fíkniefnasala og taka á ofbeldisglæpum.

Guð og alþjóð vita að lögreglan í Reykjavík (og gott alls staðar á landinu) er sársvelt á peninga, sem og mannafla og afköst hennar sýnu betri en þeirra sem að vinna sem leigulöggur hjá "öryggisfyrirtækjunum". (Trúið mér þegar að ég segi að það er mesta peningaplokk sem um getur!)

Það myndi líka slá alvarlega á hendurnar á okkur íslendingum ef að menn myndu allt í einu átta sig á því að það er kostnaðarsamt að keyra eins og vitleysingur. Ekki það að hraðakstur í Reykjavík hafi eitthvað uppá sig, þar sem að það eina sem að uppnæst er að komast fyrr á rautt ljós! (Trúið mér, er búinn að sannreyna þetta líkt og um vísindi sé að ræða!) Nú keyri ég því sem næst alltaf á löglegum hraða (hljómar ótrúlega) og kemst alveg jafnhratt á áfangastað fyrir vikið! Og fyrir ykkuð sem að þekkið mig, þá er ég næstum því hættur að blóta undir stýri !?!

Hvernig væri nú að fjárfesta í aragrúa af þessum myndavélum? Við erum nú einu sinni svo svakalega myndarleg, ekki satt?

Saturday, February 11, 2006

Má ekki bjóða þér í glas?

Enginn hræsni hefur á síðastliðnum árum orðið meira rugl en akkúrat áfengisauglýsingabannið! Samkvæmt lögum má ekki auglýsa áfengi, en alls staðar má samt sjá auglýsingar fyrir hinar ýmsu bjórtegundir. Að sjálfsögðu er þetta allt á einn eða annan máta falið undir yfirskyninu "létt-bjór" sem er að sjálfsögðu í svo smáu letri að ekki einu sinni skordýr geta lesið þettta!

Nú eru þessar auglýsingar farna að tröllríða ljósvakamiðlunum líka, með sjónvarpið uppfullt af hinum ýmsu bjórauglýsingum. Ekki nóg með það, heldur eru léttvínsinnflytjendur farnir að fara í kringum þetta með óhóflega mörgum "kynningum" og "umfjöllunum" um hin ýmsu vín. En engin meira þó heldur en einmitt Vínbúðin sjálf!!! Þarna er handbendi ríkisins í einokunarsölunni að fara í kringum löggjöf sett af sama atvinnuveitanda !?!

Væri ekki bara einfaldara að afnema þessi lög fyrir fullt og allt svo að menn geti þá bara sagt sannleikann? Mér finnst óttalega vitlaust af þeim að reyna að fela sig á bakvið það að þeir séu að reyna að vernda ungt fólk frá áfengisauglýsingum og stuðla þar með að minni unglingadrykkju. Sættum okkur bara við það, unglingar drekka hvort sem að auglýsingarnar eru fyrir hendi eður ei, og hafa alltaf gert á Íslandi!

Áfengisaulýsingabann? Pjakk!

Tuesday, February 07, 2006

Välkommen i "Sysbol"!

Í örfáum en útvöldum sósíalistabælum í hinum vestræna heimi má finna leifar af kerfiskúgun sem að hefur haft öfug áhrif miðað við það sem að kúguninn var sett á stofn til að gera.

Ég er að sjálfsögðu að tala um áfengiseinokunarsölu ríkisvalds! Að vissu leyti hafa "frændur" vorir svíar gefið smávegis eftir og leyft sölu léttbjórs (pilsner) og millisterks í matvöruverslunum og súpermörkuðum. Þeir halda hinsvegar fast í sölu sterks bjórs (yfir 5% vínanda!) og vína og sterks áfengis. Fyrir þá sem að hafa hitt svía sem að eru komnir undir áhrif áfengis (og hafa gert það edrú) fá einskonar tilvistarsjokk! Þetta er bara nákvæmlega eins og við Íslendingarnir á Föstudögum og Laugardögum! Öskrandi drukknir og grútillir yfir tímaþrönginni sem að áfengisneyslan fer fram á. Með tilvist SystemBolaget (og ÁTVR hér heima) hefur fjandinn hitt ömmu sína! Með að takmarka aðgang fólks að áfengi í slíku mæli að nánast ómögulegt er að versla það í aflöppuðu rúmi og tíma sem að hentar manni sjálfum, hefur það ekki dregið úr neyslu þess. Þvert á móti eykst áfengisneysla í þessum löndum ár frá ári (ætli það sé tilviljun að ofbeldisglæpum fjölgi líka??). Greyið góðtemplararnir sem að í mörg ár höfðu ógnartak á stjórnvöldum á landinu blæðir sárlega í fingurgómanna af að sjá þróunina fara í þveröfuga átt við þá áfengislausu útópíu sem að þeim dreymdi um. (Þeir gleymdu alveg að muna eftir hvað gerðist í BNA, þegar að Volstead lögin voru sett!)

Sem betur fer hefur landslagið í drykkjumenningu íslendinga gjörbreyst eftir hin örlagaríka 1.3.1989. Þó eigum við rosalega langt í land til að drykkjumenning verði á slíkum nótum að við getum borið virðingu fyrir meðferð áfengis, og neytt þess í hófi. Í mörgum evrópulöndum fær fólk sér oftar í glas, en minna í hvert skipti. Þegar að Íslendingar eru farnir að drekka þannig, getum við talað um að við séum kominn með "dannaða" drykkjumenningu. Þangað til, er ekki bara málið að skella sér í ríkið og ná í 1-2 flöskur, og kassa til að skola þessu niður með ? Er það ekki bara ágætis byrjun á föstudeginum ??

Skál!

Monday, February 06, 2006

Út-úr-dúr!

Þrátt fyrir lof um væl og vein, þá verð ég nú bara að taka smá út-úr-dúr. Hrós og prik verður að gefa Silvíu Nótt fyrir hreint út sagt stórkostlegt framlag til annars hinar steingeldu og ofurhallærislegu söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva! Þetta lag og þessi framkoma hennar á ekkert annað skilið en að sleppa þessu blessaða úrslitakvöldi og senda hana bara beint til hvert sem að það nú er að halda á þessa menningarleysu í þetta skiftið! Þessi stúlka er ekkert minna en snillingur, og finnst mér sjálfum hún meira að segja slá Johnny Nasjonal við hvað varðar skemmtilegan karakter!

Til hamingju Ísland! (Go Silvía...go Silvía..skilluru!)

Sunday, February 05, 2006

Þúst!

Margt get ég látið fara í taugarnar á mér. Ekkert meira þó heldur en dauði hinnar íslensku tungu! Á nettum tíu árum er málfar fólks á landinu búið að fara beinustu leið í klósettið, og gott betur til! Þegar að ég fór í minn fyrsta víking (Rape, pillage & plunder Inc) þekktist sem dæmi varla að fólk notaði hikorð (eða stopporð) til að fylla uppí eyðurnar. Í versta falli sneri maður vörn í sókn og notaði "Sko..". Í dag geta unglingar haldið uppi heilu samræðunum á hikorðum, án þess að koma út úr sér 1/10 af setningu og ekki baun af viti. Er ég að rugla? Það held ég ekki. "Þú veist" (þúst) stendur uppi sem alger sigurvegari óöryggis og málhelti, en fast á hælanna koma náttúruleg "Skilurðu" (skillurru), "Bara eitthvað" (bar eikkað) og "Þarna" (harna)

Skemmtilegt þykir mér reyndar hvað allt er orðið "geðveikt" (geðeigt)

Svo er fólk hissa á að prófessor við hinar ýmsu menntastofnanir haldi að Íslenska leggist á endanum af? Það getur vel verið að ég sé gamaldags að þessu leyti, en mér finnst rétt að við stöndum vörð um málið okkar sem að hélst því sem næst óbreytt í árþúsund. Það er hreinlega skylda okkar að vernda þessa menningararfleið, því hún er jú einhver sterkasti þátturinn í því að við getum kallað okkur "Bezt í heimi!"

Skilurðu ??!!
FREE hit counter and Internet traffic statistics from freestats.com