Sunday, February 12, 2006

Brostu fyrir myndavélina!

Á fáum en útvöldum gatnamótum í Reykjavíkurborg hefur lögreglan látið koma fyrir svokölluðum löggæslumyndavélum. Hafa þær nú staðið þarna í þó nokkur ár og veitt nokkrum vel völdum bílstjórum það tækifæri að fá úrvalsmynd af sér við að aka yfir þessi gatnamót móti rauðu ljósi. Að sjálfsögðu hafa þessir sömu bílstjórar þurft að reiða fram talsverðar fjárhæðir til að eignast svona fallegar myndir til að geta sýnt vinum og vinnufélögum, hvort sem að þeim líkar eður ei.

Út í hinum stóra heimi er minna um þetta uppátæki að staðsetja þessa undragripi á gatnamótum en meira um það að þær séu settar upp til að sporna við hraðakstri og nemi því "blásaklausa" bílstjóra við að setja fótin of þungt niður. (Trúið mér, ég hef þurft að blæða fyrir svona myndatöku) Mér finnst hreint út sagt þetta hið sniðugasta ráð til að taka allharkalega í bremsuna og danna þjóðina í að keyra á sómasamlegum hraða! Þessar myndavélar myndu raka inn peningum og gefa lögregluni tugi milljóna í tekjur, sem að hún gæti nýtt í þjóðþrifaverkefni eins og að berjast við fíkniefnasala og taka á ofbeldisglæpum.

Guð og alþjóð vita að lögreglan í Reykjavík (og gott alls staðar á landinu) er sársvelt á peninga, sem og mannafla og afköst hennar sýnu betri en þeirra sem að vinna sem leigulöggur hjá "öryggisfyrirtækjunum". (Trúið mér þegar að ég segi að það er mesta peningaplokk sem um getur!)

Það myndi líka slá alvarlega á hendurnar á okkur íslendingum ef að menn myndu allt í einu átta sig á því að það er kostnaðarsamt að keyra eins og vitleysingur. Ekki það að hraðakstur í Reykjavík hafi eitthvað uppá sig, þar sem að það eina sem að uppnæst er að komast fyrr á rautt ljós! (Trúið mér, er búinn að sannreyna þetta líkt og um vísindi sé að ræða!) Nú keyri ég því sem næst alltaf á löglegum hraða (hljómar ótrúlega) og kemst alveg jafnhratt á áfangastað fyrir vikið! Og fyrir ykkuð sem að þekkið mig, þá er ég næstum því hættur að blóta undir stýri !?!

Hvernig væri nú að fjárfesta í aragrúa af þessum myndavélum? Við erum nú einu sinni svo svakalega myndarleg, ekki satt?
FREE hit counter and Internet traffic statistics from freestats.com