Sunday, May 06, 2007

Greed is good!

Örugglega einhver af mínum uppáhaldskvikmyndaverkum allra tíma er örugglega "Wall Street" eftir Oliver Stone, með Michael Douglas í aðalhlutverki. Douglas fór á kostum sem hinn fullkomni auðvaldsinni og últra-kapítalisti og hin fleyga setning myndarinnar sem að enn lifir svo ríku lífi "Greed is good!", er enn jafngild nú og þá.

Það var mér því ómæld ánægja að komast að því að nú er í vinnslu framhald af þessari mynd. Gaman verður að sjá hvernig kvikyndið Gordon Gekko plumar sig á ný.

Alþingi Íslendinga samanstendur af 63 lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem að ég leyfi mér að halda að margir hverjir vilji þangað fara vegna þess að þeir trúi statt og stöðugt á það að þeir geti "breytt" einhverju. Þegar að þangað er komið hinsvegar er ekkert launungamál að allar hugsjónir hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar að menn komast að því hvað það eru góð laun í þessu!

Aldrei nokkurn tíma hef ég heyrt þingmenn tala af ákefð um það hversu óréttlátt það er að launaþróun og lífeyrisréttindi þeirra séu úr takt við raunveruleikann! Né heldur þá staðreynd að þeir geti ekki bara setið á þingi, heldur líka verið í sveitastjórnum samtímis!!!

Kíkjum á þetta eldsnöggt...

Grunnlaun alþingismanna eru um 500þ á mánuði, og ekki er talið til neitt annað.

63 X 500þ eru 31,5 milljón

Hinsvegar eru þarna jú ráðherrar líka og laun þeirra 11 slaga í um 1 milljón, þannig að dæmið breytist í:

52 X 500þ=26m + 11 X 1m= samtals 37m

Á ársgrundvelli er þetta um 444 milljónir, sem eru grunnlaun fyrir utan lífeyrisréttindi, sposlur, ferðakostnað og blablabla.

Alþingi Íslendinga starfar nú einu sinni þannig að það eru ótalmargar nefndir sem að fjalla um og skila álitum um "Guð-má-vita-hvað", án þess þó að í raun séu þær hið beina löggjafarvald.

Árið 2006 voru launagreiðslur vegna nefndarstarfa um 2 MILLJARÐAR ?!?!

Þetta þýðir að fyrir utan þessi hræðilegu sultarlaun sem að alþingismenn verða að sætta sig við (500þ á mánuði), þá eru þeir að hala inn um 3m aukalega á mánuði í nefndarstörf! (Gróflega áætlað, 2 milljarðar deilt með 63 þingmönnum)

Hinsvegar eru ekki allir sem að fá að komast í þessi annars "skemmtilegu" nefndarstörf og því líklegt að einhverjir nefndarmenn eru með rausnarlegri greiðslur en aðrir.

Svo má nú ekki gleyma að sumir okkar ágætu þingmanna sitja líka í sveita/bæjar/borgar-stjórnum og þyggja þaðan laun líka. Þar er hinsvegar annað fyrirkomulag. Þar ber (s.d. í Reykjavík) borgarfulltrúum að sitja í nefndum (a.m.k. 2) til að geta þegið laun, og er það innifalið í launum. Í Reykjavík eru laun borgarfulltrúa um 80% af þingafarakaupi, eða um 400þ. Hinsvegar geta menn "djúsað" þetta aðeins upp með að komast í fleyri nefndir en 2, og náð sér í þannig aukapening ;) Svo maður tali nú ekki um að stija í stjórn OR, sem ekki er nefnd, heldur HF í eigu Reykjavíkur, Akraness og Borgarfjarðarsveitarkaupstaðareitthvað.

Við getum leitt hugann að því að stjórnarmaður í OR hafi um 2-300þ í laun og stjórnarformaður um 4-500þ.

Tökum okkur lítið dæmi...

Guðlaugur Þór Þórðarson er borgarfulltrúi, alþingismaður og stjórnarformaður OR.

Borgarstjórn=400þ
OR=400þ
Alþingi=500þ
Nefndir=2m (ákvað að hafa þetta lágt til að vera "raunsær")

Samtals 3,3m á mánuði fyrir utan hlunnindi, sposlur og lífeyrisréttindi eða um 40m á ári.

Það er bara alls ekkert svo slæmt að vera í pólitík?

Við skulum ekki gleyma því að alþingismenn stija þing um aðeins 7-8 mánuði á ári (ef svo gott).

Er ekki málið að skella sér í framboð ?

Monday, April 30, 2007

Glæpur & Refsing

Nei! Ég er ekki að tala um bókmenntaverkið eftir Dostojevski...

Fimmtudaginn seinasta dæmdi Hæstiréttur íslands Jón Pétursson í 5 ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun. Það sem gerir málið svo sérstakt er að þessi umræddi Jón hafði áfrýjað þessu máli til hæstaréttar og meðan á þeirri bið stóð tók hann sig til og nauðgaði annari konu!

Þið ættuð nú að kannast við og hafa lesið um málið, enda mikið skrifað um þetta.

Það er með ólíkindum að réttarkerfið á Íslandi skuli vera svona svifaseint og þunglamalegt að það taki svona langan tíma að koma þessu í gegnum kerfið. Enn verra er að svona maður fái rétt svo slegið á fingurna með þessum hlægilega dóm!

Þar sem að það eru nú að koma kosningar, þá ætti maður kannski að spyrja sig, er einhver af flokkunum að tala um að efla löggæsluna hér í landi ? Gera réttarkerfið skilvirkara ? Þyngja refsingar í takt við glæpi ?

Saturday, April 28, 2007

Pönnukökuplanið! (...eða Pizzuskipulagið)

All snögglega og upp úr engu er að myndast alveg feiknarleg umræða allt í einu um háhýsi á Íslandi. Í blaði Mbl í gær var lítilsháttar grein um byggingu höfðatorgs, þar sem að kom fram að hæsti turninn þar yrði um 70 m hár og 19 hæðir. Til var fenginn arkitekt að nafni Pétur-Eitthvað sem að gekk svo hreinlega til verks að byrja að rakka þetta niður í skjóli þess að "svona gerir maður bara ekki" (kannski ekki í svo mörgum orðum, en það þarf ekki reiknivél til að lesa úr orðum hans)

Þetta hugarfar er skínandi dæmi um það, hvað metnaðarleysi og leti arkitektasamfélagsins á íslandi er allsráðandi! Ef að þessi kynstofn hefði minnsta snefil af sjálfsvirðingu og metnaði, væru arkitektar hér miklu gjarnari á að hanna stærri og fyrirferðameiri byggingar og hverfi en hingað til hefur tíðkast. Hinsvegar hafa þeir bara sætt sig við að sitja á rassgatinu og renna af teikniborðinu hverju einbýlis/parhúsinu af fætur öðru! Það er jú meiri peningur í því að gera einfaldan hlut oft og hratt, heldur en að gera flókna hluti sjaldnar ;)

En..það er nú kannski ekki bara arkitektunum um að kenna. (þótt að furðulegt sé að allt í einu þegar að einhver teiknar háhýsi, þá er einn þeirra ekki lengi að andmæla því)

Skipulagsyfirvöld verða nú að taka sinn skerf af þessu, sem og einstaklingshyggja almennings líka. Það verða jú allir að búa í einbýlishúsi! Pjakk!

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri og klikkhaus #1, hefur um árabil verið ötull talsmaður þess að þétta byggð og byggja upp. Að vissu leyti verð ég að segja að ég er honum mjög mikið sammála! Enda er þetta ógurlegur kostnaður að byggja alltaf ný og ný hverfi upp!

Sé rétt staðið að þessu (líkt og á Sæbraut (skúlagötu)) þá er þetta stórkostlega flottur hluti af borgarmyndinni! En ég myndi samt ekki vilja fórna sjarma gömlu miðborgarinnar fyrir háhýsi. Frekar nær lagi að rífa niður hönnunarslys 7unda og 8unda áratuganna og byggja eitthvað reisulegt!

Sem er jú það sem að búið er að gerast í Borgartúni og Höfðatorgi.

Sunday, April 08, 2007

Fiklar!

Það er hægt að verða fíkill að því sem næst öllu í þessum nútímaheimi! Ósköp algengt er að fólk sé haldið fíkn í áfengi. Sumir eru eyturlyfjafíklar, aðrir spila fjáráhættuspil.

Flest okkar losna ekki við koffín-fíknina, og nokkur okkar slást við tóbaks-drauginn.

En ein fíkn fær ekki eins mikla umræðu og maður hefði haldið...sérstaklega ekki þar sem að velflest okkar erum svo innvikluð í hana að við hreinlega áttum okkur ekki á því!

Fíknin sem að um ræðir er að sjálfsögðu Olía!

Pjah!...segirðu kannski ? Hvað heldurðu að það sé sem að fái bílinn þinn til að ganga ?

Kíktu á heimildarmynd sem að heitir "Who Killed The Electric Car?"

Stórkostleg mynd í alla staði!

Monday, March 26, 2007

The Bastard Child

Eitt af illum afsprengjum góðæris, þenslu, hagvaxtar er það að það er nóg af störfum að fá. Þegar að góðærið er svo komið á það plan sem að það er hérna, þá byrja að birtast allt í einu útlendingar í bílförmum og þyggja eitthvað af þessum störfum.

Að mörgu leyti er það gott og blessað, þar sem að það skapar einungis meiri hagvöxt, og sér til þess að flestir hafi það gott. Hinsvegar er hængurinn sá að þetta fólk, sem oftar en ekki talar ekki annars útbreydda túngumálið okkar (og oftar en ekki heldur Ensku) endar á því að sinna "láglauna" störfum.

Reyndin er hinsvegar sú að mikið af þessu fólki er ekkert að taka heim minni pening en við hin. Þau enda í "þessum" störfum, þar sem að í öllu góðærinu, förum við hin fínt talandi (!?!?!) í "betri" og "mikilvægari" störf. Þar sem að við erum nú kominn í svo góð störf og orðin svo "mikilvæg" að við getum ekki sinnt þessum grunnstörfum, hjálpum við til með að ýta undir þennslu og verðbólgu með því að kaupa/eyða/fjárfesta í flottari og dýrari hlutum, því jú, þegar að maður er kominn í svona "mikilvæg" störf, þá verður maður að "lúkka" líka í hlutverkinu.

Svo förum við í fínu fötunum okkar, á fínu bílunum okkar, að versla í fínu búðunum og dáumst að því hvað við lýtum vel út! En svo erum við stórkostlega hneyksluð yfir því að afgreiðslukonan á skyndibitastaðnum varla geti talað Íslensku! Ekki sé ég marga Íslendinga sem að nenna að skella á sig svuntunni og fara að steikja borgara eða afgreiða þá! Kaldhæðnin er svo fullkomnuð þegar að "illa" talandi afgreiðslustúlkan sýnir þjónustulund og brosir út í eitt, þar sem að hún er að öllum líkindum að hala inn ansi fleyri krónum en margir sem að eru að vinna í tískuverslunum!

Ég gæti skrifað heila bók um skort Íslendinga á þjónustulund...en það kemur seinna!

Mér finnst hroki, hræsni og yfirgengileg frekja okkar Íslendinga fullkomnast í því að hneykslast yfir því að fólkið sem að er að sinna störfunum sem að við nennum ekki, þurfi að liggja síðan undir svívirðingum fyrir það!

A little reality check and humility please ?

Friday, March 16, 2007

Í fjarska...

Lengst norður í hafi, upp við heimskautabuginn búum við allsnægtir og öryggi sem að fæstir geta státað af. Af einhverjum völdum þá virðumst við nú samt að ná að kvarta og kveina yfir hinum minnstu hlutum.

Ef að þú heldur rúmlega 10 þúsund kílómetra í suður, muntu rekast á heimsálfu sem að er okkur svo fjarræn og fjarska-langt í burtu að við skiljum ekki hvernig að þeir geti ekki séð fyrir sér sjálf.

Í Afríku búa hundruðir milljóna manna við eymd, örbrigð og harðræði sem að ekkert okkar gæti lifað af í ekki lengri tíma en litla viku. Samt þurfa þau að þola þetta og lifa engu að síður.

Fæstir af þeim sem að þarna búa, hafa nokkuð með sín eigin lífskjör að segja, hvað þá heldur vilja eða skilja hvað það er sem að er að gerast í kringum þau. Þau einfaldlega þurfa að þola þetta sökum einhvers annars. Oftar en ekki harðstjóri eða stríðsherra sem að hefur hrifsað til sín völdin í skjóli þess að fólk ekki hefur mátt til að berjast á móti því.

Hér í hlýjunni og alsælunni, sitjum við og þerrum krókódílstárinn yfir eymd og ömurlegheitum þessa fólks. Það sem að við gerum okkur ekki grein fyrir, er að það þarf ósköp lítið til að stórbæta lífskjör þessa fólks.

Nú sit ég í sjóðandi heitri íbúðinni og hlusta á snjóinn kingja niður. Á meðan ég geri það, þá er ég að horfa á "Red Nose Day" á BBC. Red Nose Day er lokadagurinn í 2ja vikna verkefni sem að er árlega á BBC sem að gengur undir nafninu "Comic Relief"

Á þessum 2 vikum leggjast minna og meira frægir bretar á eitt að skemmta þjóðinni á sinn kostnað, svo að hægt sé að safna peningum fyrir ekki bara bágstadda í Afríku, heldur bágstadda yfir höfuð. Því miður þá er það nú þannig að fólk í Afríku hefur það miklu verra en við í Vesturheimi. Samheldnin og krafturinn í þessi átaki, ár eftir ár er ekkert annað en aðdáunarverður! Viljinn til að leggja þessu málefni lið, er svo mikill í Bretlandi að meira að segja forsætisráðherran, Tony Blair, tekur þátt í að gera grín að sjálfum sér!

Að sjálfsögðu eru allir frægir grínistar Bretlandseyja í forgrunni, og margir hverjir sem að ekki eru grínistar leggja sig fram við að gera grín að lífinu og tilverunni, bara til þess eins að safna peningum handa bágstöddum. Að jafnaði safnast tugir milljóna punda (milljarðir ÍSK), sem samt eru ekki nema undir 1 pundi á mann í Bretlandi.

Þegar að þú leggur þig til hvílu í kvöld, mundu að það litla/mikla sem að þú hefur er marg, margfalt meira en milljónir, og jafnvel hundruðir milljóna manna um allan heim hafa!

Sýndu lífinu og tilverunni smá auðmýkt!

Refsing og réttlæti á Íslandi í hnotskurn!

Þökk sé hinum afar fljótu netmiðlum, þá birtust á mbl.is 2 fréttir í dag. Þær eiga það sameiginlegt að fjalla um dóma sem að voru felldir.

Prófið að bera þá saman og hugsa aðeins um hvað refsilöggjöfin (vegna skorts á betri lýsingu) er fáranlega langt út úr kú í okkar samfélagi!

Dómur #1

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1259173

Dómur #2

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1259175

Hvað á maður að segja???

Thursday, March 01, 2007

Tilvistarkreppa!

Það er með ólíkindum hvað í ósköpunum ég get látið ómerkilega hluti fara í taugarnar á mér!

Nýjasta nýtt er hinn yfirgengilega inreið www.mbl.is á blogheiminn. Þetta er farið að líkjast því sem næst "Hostile Takeover"!

Þarna vilja helst allir vera, enda hefur Mogga-mönnum tekist að sjóða saman bræðing af blogspot/blog.central og MySpace. Þarna geta menn að sjálfsögðu bloggað, en einnig er töluvert auðvelt að móta og sníða mátinn á síiðunni. Svo geta menn einnig eignast "Blogvini" líkt og "vini" á MySpace eða "MinnSirkus".

Ég verð nú að taka hattinn af þeim fyrir að geta mallað þetta svona saman og slegið flugnabú í einu höggi! En það er sko ekki það besta!

Þarna getur fólk stytt sér stundir í skólastofum, skrifstofum og hvar það nú finnur sig við að fara inn á www.mbl.is og "Blogga um frétt" !!! M.ö.o. er hægt að smella á hlekk og tjá sig á sinni persónulegu blog/MySpace/egó-flipp síðu um fréttirnar sem að þeir birta. Believe you me...það er fullt af fólki sem að hefur greinilega ekkert við tíma sinn í vinnuni/skólanum/heimilinu að gera, heldur en að blogga um fréttir!

Svo er nú aðalsportið að ná að vera einn af 2 fyrstu til að blogga um fréttina, svo að fólk lesi nú örugglega þína blogfærslu um viðkomandi málefni! (Það sjást nefnilega bara hlekkir á 2 blogfærslur í einu) Mikið af þessum færslum eru meira að segja einungis 2-3 línur frá fólki sem að hefur ekkert bitastætt um málið að segja !!!

Skreytinginn á kökuna er nú að þarna inni eru komnir margir fjölmiðlamenn og aðrir áberandi einstaklingar í þjóðfélaginu (Jónina Benediksdóttir að blogga um ekki neitt úr de-toxinu sínu) og meira að segja menn eins og Dómsmálaráðherrann! (Sem að var bókstaflega keyptur til Moggans eins og leikmaður í knattspyrnu!)

Sum blogg þarna inni eru ansi skemmtileg, s.b. Sigmar Guðmundsson og Steingrímur Ólafs (stundum)

En upp til hópa er þetta bara Jói-Jóns og Gunna konan hans sem eru að vonast til að einhver "selebbi" vilji verða "vinur" þeirra, og að einhver snjall kall taki eftir stundarbrjálæðisbloggfærslu og áliti þau snillinga og reddi þeim rithöfundalaunum við að blogga um fréttir!

Dömur mínar og herrar, fyrsta blog-vændishúsið hefur litið dagsins ljós! (Mogginn lýgur aldrei!)
FREE hit counter and Internet traffic statistics from freestats.com